Sultur

Knut Hamsun hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, sem og August Strindberg og Edward Munch. Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist að þeir væru sami maðurinn. Þessi norræna firring sem einkennir líf og verk þeirra höfðar rosalega til mín.

Hér er upphafið að Sulti eftir Hamsun í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi. Svakalega er það svalt að vera frá Kaldaðarnesi. Ég er bara frá Garðabæ. Hljómar einhver veginn ekki alveg eins grípandi. Jæja, Sultur hefst svona:

Það var á þeim árum, þegar ég ráfaði um og svalt í Kristíaníu, þessari undarlegu borg, sem enginn yfirgefur fyrr en hann hefur látið á sjá . . .

Einfalt, hnitmiðað, dularfullt.

Þótt ég hafi sagt að ég væri úr Garðabæ, þá er ég fæddur í Reykjavík, sem vissulega er líka undarleg borg sem setur mark sitt á mann. "Reykjavík, ó Reykjavík!" Muna ekki allir eftir "Ó Reykjavík" með Vonbrigðum? Nú langar mig að heyra lagið aftur. Söngvarinn söng þetta eins og hann væri á barmi taugaáfalls. Gargandi snilld.

Þegar ég kem í heimsókn til Íslands fæ ég mér alltaf pylsu með öllu og kók á Bæjarins bestu og geng síðan upp á Bárugötu, þar sem ég bjó þangað til ég var sjö ára. Þar byrjaði heimurinn. Þegar ég fer á Bárugötuna er eins og ég geti gengið inn í eigin bernsku. Ég er mjög þakklátur fyrir að þessi hluti borgarinnar hefur ekki breyst mikið.

Ég hóf mína skólagöngu, sem varð ansi löng, í Gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Við byrjuðum hvern dag með því að syngja "Ó Jesús bróðir besti." (Maður bar nú aldrei fram s-ið í Jésús, og ég held að fæstir geri það, en svona er textinn upprunalega. Þetta er jú nefnifall.)

Ó Jésus bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

 

Mér gott barn gef að vera

og góðan ávöxt bera

og forðast allt hið illa

svo ei mér nái að spilla.

Afskaplega fallegt lag og ljóð. Ég syng þetta stundum, þótt ég sé gersamlega guðlaus maður.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband