Nauðvörn lækna, nauðvörn sjúklinga

Hvorki gengur né rekur í læknadeilunni. Formaður Læknafélags Íslands, Þorbjörn Jónsson, segir:

„Já, já, það er mikill hugur í læknum og menn telja að þetta sé algjör nauðvörn og núna sé að duga en ekki drepast."

Í fyrsta lagi er talað um að „duga eða drepast". Í öðru lagi, að taka svona til orða afhjúpar sjálfhverfni formannsins, því aðgerðir lækna eru lífshættulegar sjúklingum þeirra. Hann virðist ekki skilja hvernig orð hans hljóma í eyrum almennings. Læknar vilja ekki drepast, skiljanlega, en hvað með sjúklinga? Þeir vilja heldur ekki drepast. 

Læknar boða hertar aðgerðir 5. janúar. Á meðan talast menn ekki einu sinni við og eru bara í fríi.  

„Hvað þarf að gerast til þess að annar fundur verði boðaður?" spurði fréttamaður RÚV 11. desember.

„Nú get ég ekki fullyrt um það. Það er svolítið í höndum sáttasemjara að ákveða það", segir Þorbjörn. Nú taki við þriggja vikna frí og inn í því jól og áramót," segir í fréttinni.

Fréttamaður spyr einnig: „Munið þið geta tryggt öryggi fólks á þessum þremur mánuðum [fyrirhugaðrar verkfallslotu]?" Svar Þorbjarnar er eftirfarandi:

„Ég get auðvitað ekki fullyrt það." Sem sagt, formaður læknafélagsins játar að öryggi fólks verður ekki tryggt.

Formaður Skurðlæknafélags Íslands, Helgi Kjartan Sigurðsson, tekur í sama streng og Þorbjörn um að það sé hugur í hans mönnum: 

„Já, því að hinn valkosturinn er eiginlega að hætta. Þannig að fólk getur ekki annað en haldið áfram að berjast fyrir þessu því það liggur undir allt heilbrigðiskerfið. Það eru ekki bara kjör okkar heldur áframhaldandi mönnun. Þróunin hefur verið slík að það verður að grípa inn í".

Hér afhjúpast sama sjálfhverfnin og hjá Þorbirni. Þrátt fyrir málflutning lækna um að deilan snúist um heilbrigðiskerfið snýst deilan auðvitað um kjör þeirra. Það er skiljanlegt. Læknar segjast vera í nauðvörn, en þeir virðast reiðubúinir að leggja allt heilbrigðiskerfið undir til að ná sínu fram. Sjúklingar eru í enn meiri nauðvörn er læknar. Þeir eru ekki að berjast fyrir kjörum. Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu.

 

Heimildir: http://www.visir.is/laeknar-ekki-bjartsynir-a-ad-samningar-naist-fyrir-aramot/article/2014141229552

http://www.ruv.is/frett/fullyrdir-ekkert-um-oryggi-almennings


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband