Níundi áratugurinn

Ég var ungur maður á síðustu öld. Níundi áratugurinn var minn tími. Reyndar er það nú bara bull. Manni fannst flest asnalegt á þessum tíma, en svona eftir á að hyggja var níundi áratugurinn ekki eins mikill hryllingur og sumir vilja vera láta.

Ég fer stundum á YouTube til að kíkja á hin og þessi myndbönd. Þegar maður býr erlendis--á Stór-Vancouver svæðinu, Kanada, nánartiltekið--þá notar maður oft netið til að fylgjast með því sem er að gerast á Íslandi og lætur stundum eftir sér að gæla við fortíðarfíkn. Ég sló inn "Þeyr" og, viti menn, upp spruttu þrjú myndbönd. Það er mjög sérstakur andi yfir þessu. Þessir náungar voru metnaðarfullir og greinilega meðvitaðir um að þeir voru að taka þátt í alþjóðlegri tónlistarbylgju. Samt var þetta með séríslenskum formerkjum. En þeir sungu á ensku. Heimsyfirráð eða dauði kannski? Þeir voru í einhvers konar samstarfi við Killing Joke, en Þeyr urðu aldrei frægir og það er allt í lagi. Samt svolítil synd að allur þessi kraftur skuli ekki hafa fengið meiri athygli heimsins. Hvað varð um þessa menn? Ég sá Þorstein Magnússon spila með Bubba á 06.06.06 konsertnum hans. En ég veit ekkert um hina.

Svo kom gegnumbrotið: Sykurmolarnir/The Sugarcubes. Allt í einu las maður í Melody Maker, eða var það NME, að Sykurmolarnir hefðu verið að spila fótbolta við The Cure. Robert Smith meiddist. Hann sparkaði í málmkross sem einhver Molanna var með á fætinum. En Smith tók þessu vel. Íslenskir tónlistarmenn og breskir orðnir jafningjar. Ísland orðið töff. Ekki lengur púkó.

Svo kom Björk. En þetta gerðist auðvitað ekki einn, tveir og þrír. Þær pælingar sem höfðu verið í gangi var forvinnan, jarðvegurinn. Níundi áratugurinn. Gæti hafa verið verri. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir að kíkja í heimsókn. Ég tékka á þessu.

Wilhelm Emilsson, 23.7.2007 kl. 19:07

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þeysararnir voru hrikalega skemmtilegir og það vill nú þannig til að ég get aðeins nördast við að uppfræða þig um stöðuna á þeim ágætu mönnum.

Sigtryggur Baldursson trommari er einna helst í sviðsljósinu, þá kannski oftast í gervi Bogomil Font. Þorsteinn Magnússon er eitthvað að spila af og til og eins hinn gítarleikarinn, Guðlaugur Óttarsson. En það fer lítið fyrir þeim báðum.

Hilmar Örn Agnarsson bassaleikari er organisti í Skálholti og hinn Hilmar Örninn (Hilmarsson), sem var nú held ég ekki beint í bandinu, fæst við tónsmíðar og á m.a.s. Felix verðlaun upp á hillu .

Um afdrif Magnúsar Guðmundssonar söngvara veit ég lítið sem ekkert, held allavega að hann hafi ekkert sungið sem heitið getur síðan á níunda áratugnum. Sem er miður því hann var geysiskemmtilegur söngvari.  

Heimir Eyvindarson, 24.7.2007 kl. 00:54

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Sæll, Hilmar.

Það er þér að þakka að ég veit meira í dag en í gær.

Wilhelm Emilsson, 24.7.2007 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband