Herra Óframkvæmanleiki
12.1.2015 | 00:06
Yfirlýsingin frá Forsætisráðuneytinu er svohljóðandi:
Strax og tilkynning barst um samstöðufundinn var hafist handa við að gera ráðstafanir svo hægt yrði að þiggja boðið og tryggt yrði að fulltrúi Íslands mætti.
Forsætisráðherra lét kanna hvort möguleiki væri á að hann gæti mætt sjálfur til athafnarinnar. Vegna ýmissa samverkandi þátta, einkum skamms fyrirvara, ferðatíma og dagskrár ráðherra, var hvorki forsætis- né utanríkisráðherra fært að taka þátt í göngunni.
Ég var nú að vona að afsökunin yrði svolítið frumlegri og skemmtilegri. En gott og vel. Sem sagt, fyrirvara-, ferðatíma-, og dagskrárlegur óframkvæmanleiki varð þess valdandi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sá sér ekki fært að mæta. Já, það getur verið erfitt að glíma við hina ýmsu samverkandi þætti tilverunnar.
Uppáhaldsafsökunin mín er eftirfarandi. Einu sinni var ungur maður skotinn í ungri konu. Hann mannaði sig upp, hringdi í hana og bauð henni út. Hún svaraði:
Nei, veistu, ég kemst ekki. Ég þarf að þvo mér um hárið."
UPPFÆRT:
Þetta skrifaði Sigmundur Davíð á Facebook. Nú þekki ég minn mann!
Hafa skal það sem réttara reynist! Það er rangt að ég hafi afþakkað boð Frakklandsforseta um að taka þátt í samstöðugöngunni í París í dag. Það barst raunar ekkert boð frá Frakklandsforseta. Í fyrrakvöld fékk ég hins vegar í hendur bréf frá franska sendiráðinu þar sem þakkað var fyrir stuðning við Frakka og bent á að erlendum gestum sem þess óskuðu byðist að taka þátt í göngunni. Það boð Frakka var heldur ekki afþakkað, þvert á móti var strax farið í að tryggja að fulltrúi mætti fyrir hönd Íslands. Ég hafði áhuga á að mæta sjálfur, enda hafa viðburðirnir í Frakklandi og ýmislegt sem þeim tengist haft mikil áhrif á mig, eins og marga aðra. Mér þótti leitt að það skyldi ekki ganga upp en þó leiðinlegra að sjá að rangfærslur um það skuli beina athyglinni frá því sem öllu máli skiptir: Samúð með fórnarlömbunum og mikilvægi þess að ræða grundvöll mannréttinda og standa vörð um hann.
Það var ekkert boð, þess vegna afþakkaði hannn ekkert. Samt var boð og það var ekki afþakkað. Og eins og vanalega voru fjölmiðlar bara með leiðindi og útúrsnúninga og ættu að skammast sín.
Tímaskortur hamlaði för ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.