Færsluflokkur: Bloggar

Framhaldssagan: Sjötti kapítuli

6

            “Hvernig hefurðu það annars?” sagði Sveinki þegar þeir Hökki voru sestir inn í stofu.

            “Alveg þokkalegt. Má ekki bjóða þér í glas? Ah, nei, þó getur náttúrulega ekki drukkið þegar þú ert á vakt.”

            “Vertu ekki með þessa stæla. Gefðu mér í glas.”

            “Hvað má bjóða þér.”

            “Bjór.”

            “Dökkan eða ljósan?”

            “Ljósan.”

            “Innfluttan eða innlendan.”

            “Innfluttan.”

            “Frá hvaða heimsálfu?”

            “Evrópu.”

            “Þýskan, danskan, hollenskan . . .”

            “Hökki.”

            “Já.”

            “Hættu þessu.”

            “Ókei.”

            “En hvað má bjóða þér að drekka?”

            “Romm og kók. Og spilaðu Bubba og EGO fyrir mig, Breytta tíma. Við þurfum að tala svolítið saman.”

            “En fyrst drekkum við, er það ekki?”

            “Jú, fyrst drekkum við.”

            Þeir drukku. Og þegar Bubbi söng

                           þú vilt ekki vakna

                           þú vilt vera í friði                       

                           þú ert eins og útrunninn skiptimiði

sungu þeir með.


Ammæli

The Picture of Dorian GrayÉg á afmæli í dag. Ég er alltaf jafn unglegur, en portrettið af mér uppi á hálofti er farið að gangast svolítið fyrir. Ef þið reynið að sauma fugl í nærbuxurnar mínar þá læt ég berja ykkur Tounge


Framhaldssagan: Fimmti kapítuli

   

5

Hökki kom til dyra. Hann var í svörtum kínverskum silkislopp, vönduðum leðurinniskóm og reykti sígarettu með gylltum fílter. Hann leit beint framan í Sveinka og sagði: "Hvað get ég gert fyrir yður?"

            "Sæll, Hökki. Þekkirðu mig ekki? Þetta er Sveinki."

            "Ah, Sveinki. Þú hefur bætt aðeins á þig. Við höfum ekki sést síðan . . ."

            ". . . síðan við vorum nítján."

            "Og meðlimir í Prestaklíkunni. Og núna ert þú rannsóknarlögreglumaður. Kaldhæðnislegt, ekki satt? Þú varst efni í stórglæpamann. Hvað fór úrskeiðis?"

            "Æi, blessaður vertu ekki með þessa stæla. Hver heldurðu að þú sért? Oscar Wilde? Mér þykir leitt að tilkynna þér að svo er ekki. Þú ert bara venjulegt íslenskt skítseiði, alveg eins og öll hin skítseiðin í þessari borg."

            Bros færðist yfir andlitið á Hökka. Hann sagði: "Já, þetta er kannski rétt hjá þér. Ég er auðvitað eins og hvert annað skítseiði í hópnum, enginn stjórnmálagúrú með markmið eða völd. Ég á enga lausn. Kannski kirkjan á staðnum. Ég er aðeins bölsýnismaður á kjarnorkuöld."

            "Þú vilt vera í friði. Þú vilt ekki vakna," sönglaði Sveinki og glotti við tönn.

            "Við strákarnir tókum pillur til að stytta daginn. Slátruðum viskíflösku þegar fyrstu neonljósin voru tendruð . . . Ðós ver ðe deis, mæ frend. Ví þod ðeid never end. En tímarnir breytast, Sveinki. Erum við útrunnir skiptimiðar?"

            "Ég veit það ekki? Hvað heldur þú?"

            "Ég veit það ekki heldur. Komdu inn fyrir. Við þurfum að fá okkur í glas. Segðu keðjuhundunum í garðinum að þeir geti tekið sér pásu. Ég fer ekki að flýja frá þér, Sveinki. Ég renn ekki af hólmi. Hvert ætti ég svosem að fara? Á Íslandi getur enginn flúið. Við erum öll fangar. Fangar í borg óttans."

            "Þú hugsar of mikið, Hökki. Það var alltaf þitt vandamál."


Framhaldssagan

 

4

Sveinki ók niður Laugaveginn á líkkistusvörtum Hummerjeppa með öryggisgleri og rimlum. Í aftursætinu sátu tveir þýskir fjárhundar, Max og Moritz. Þeir voru í gráum síðum frökkum, leðurstígvélum og með hjálma. Um hálsinn voru þeir með keðjur og málmskyldi sem á var grafið Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.

"Heyrðu, Sveinki," sagði Max. "Ef við eigum að berja einhvern fyrir þig þá viljum við fá að borða fyrst."

"Bæjarins bestu, Bæjarins bestu," galaði Mortitz.

"OK, strákar. Við stoppum á Bæjarins bestu og fáum okkur pylsu og kók."

"Tvær pylsur hver og tvær kók hver," hrópaði Moritz.

"Vertu ekki með þessa frekju," sagði Max.

"Ef þið hagið ykkur vel þá fáið þið ís með dýfu í eftirmat," sagði Sveinki.

"Ís í boxi, ís í boxi" æpti Mortitz. "Ég vil Badda box. Hann er bestur."

"Ég sagði ef þið hagið ykkur vel," áréttaði Sveinki. "Og ekki tala svona hátt, Moritz. Ég heyri alveg ágætlega."

"Sorrí, Sveinki. Við erum bara alltaf svo svangir og upptjúnaðir," sagði Moritz.

"Þeir gefa okkur ekki nóg að borða svo að við séum alltaf pirraðir og til í slagsmál," bætti Max við. "Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta brot á okkar rétti."

"Já, þetta er ósanngjarnt," sagði Sveinki. "Þú ættir að hafa samband við Dýraréttindadómstólinn." Hann lagði bílnum á litla planið á horni Pósthússtrætis og Skúlagötu. "Jæja, strákar. Fáum okkar að borða. Ég splæsi."

Næst komu þeir við í sjoppu á Vesturgötunni. Moritz fékk Badda box og Max fékk Alla ísálf.

"Vilt þú ekki ís, Sveinki?" spurði Moritz.

"Nei, ég er í megrun. Konan segir að ég sé svínfeitur."

Sveinki ók af stað. Þeir komu að tvílyftu ómáluðu steinhúsi við Nýlendugötuna. Sveinki lagði jeppanum.

"OK, strákar. Þetta er grenið hans Hökka. Felið ykkur í garðinum. Ég ber að dyrum. Ef Hökki reynir að flýja út um bakdyrnar, þá grípið þið hann, en ekkert óþarfa ofbeldi. Er það á hreinu?"

"Við erum fagmenn," svaraði Max.

"Að sjálfsögðu. Kílum á þetta."

 


Upptekinn

Jæja, núna er maður kominn á fullt að kenna. Ég er að kenna nýjan margmenningarkúrs og hef í mörg horn að líta, en þetta er spennandi vinna, því ég hannaði kúrsinn sjálfur og er að kenna efni sem mig hefur lengi langað til að fjalla um. Á ensku kallast kúrsinn Introduction to Intercultural/International Studies. Þemað er Culture and Desire. Menning og ástríða. Svaka spennó!

En ég er ekki búinn að gleyma framhaldssögunni. Ég ætla að reyna að birta nýtt efni um helgina.


Glysrokk

Gott grúv í þessu

http://youtube.com/watch?v=8xJ_agcMy5c&mode=related&search=

Og ekki er þetta verra

 http://youtube.com/watch?v=Q28WYKnGNNE

 


Framhaldssagan

 

3

 

Fundinum var lokið. Björn yfirvarðstjóri kallaði Sveinka inn á skrifstofu til sín.

"Ég er með tvö verkefni fyrir þig," sagði Björn. "Ég vil að þú einbeitir þér að því að brjóta Prestaklíkuna á bak aftur, en fyrst ætla ég að biðja þig um að taka með þér tvo keðjuhunda og banka uppá hjá þessum náunga." Björn rétti honum ljósmynd. "Þú kannast við kauða, er það ekki?"

Sveinki leit á myndina. Hún var af Hökka hundi.

"Æ, já. Hökki kallinn. Manstu þegar hundar voru bannaðir í Reykjavík? Gúdd tæms. Hvað hefur hann gert af sér núna blessaður?"

"Ég hef fengið kvartanir frá leigjendum hans, allt konum, um að hann sé að abbast upp á þær, oft mjög gróflega. Hér er skýrslan." Björn rétti Sveinka þykka möppu.

"Ég vil nú ekki gera lítið úr kynferðislegri áreitni, en væri ekki tíma mínum betur varið í eitthvað annað? Hvernig er þetta? Vinnur engin hérna nema ég?" sagði Sveinki.

"Ég er búinn að senda tvo kollega þína til að ræða við gæjann, en þeir ná engum árangri. Ég er orðinn þreyttur á þessu. Þú nærð árangri."

"Fæ ég 00 leyfi?"

"Nei, en ég get látið þig hafa -2 leyfi."

"Leyfi til að meiða. Ég er ekki viss um að það sé nóg. Ég gæti þurft -1."

"Leyfi til að misþyrma, segirðu. Hm. Jæja þá. Segjum það. En þá vil ég aldrei þurfa að heyra minnst á Hökka hund framar."

"Hafðu ekki áhyggjur. Málið er dautt," sagði Sveinki og stóð upp.

"Heyrðu, Sveinki, sestu niður. Ég á eftir að tala við þig um prestana."

"Æ, getur það ekki beðið? Ég er ekki í stuði til að tala um þá núna."

"Jæja, þá. Við spjöllum saman seinna," sagði Björn góðlátlega.

"Kærar þakkir, yfirvarðstjóri," sagði Sveinki og gekk út af skrifstofunni.

 


Framhaldssagan

 

2

 

Sveinki lagði gamla brúna Wagoneer jeppanum sínum með brotnu gerviviðarklæðningunni í stæði við Lögreglustöðina við Hlemm. Fimm mínútum síðar sat hann á fundi sem yfirvarðstjórinn Björn Björnsson stjórnaði. Herbergið var troðfullt og loftið var þungt.

 

“Gott fólk,” rumdi Björn. “Það er kominn tími til að takast á við þennan glæpaklíkufaraldur sem fer eins og eldur í sinu um höfuðborgarsvæðið. Það er skömm að þessu. Eins og mig grunaði er Vestur-Íslendingaklíkunni verulega farið að vaxa fiskur um hrygg. Þetta lið kemur hingað heim fáránlega ofmenntað, með amerískan hreim, skuldahala, hóp af börnum, fær svo ekki vinnu auðvitað—ég meina, hver vill ráða þetta pakk?—og fer að díla dóp til að geta borgað námslánin og VISA reikningana.”

 

“Nú ekki eru Austur-Evrópugengin skömminni skárri,” hélt hann áfram, “hangandi í Kringlunni daginn út og inn, stelandi öllu steini léttara. Mér er tjáð að í Kringlunni fari ein búð á hausinn á viku vegna “vörurýrnunar.” Huh, öllu má nú nafn gefa.”

 

“Djöfulsins innflytjendur,” sagði hrokkinhærð rauðbirkin götulögga.

 

Björn sló hramminum í borðið. “Ég líð engan rasisma hér, Ásgeir! Er það skilið?”

 

“Já, yfirvarðstjóri.”

 

“Svo getur þú nú trútt um talað, Eyjapeyinn þinn,” bætti Björn við.

 

“Heyrðu, þetta er nú ekki sanngjarnt,” svaraði Ásgeir.

 

“Sanngjarnt? Auðvitað er þetta ekki sanngjarnt. Lífið er ekki sanngjarnt. Það veist þú jafnvel og ég, kallinn minn. Í veröld þar sem Árni Johnsen fær að gefa út plötur getur lífið ekki verið sanngjarnt. En við bítum á jaxlinn og gerum okkar besta, er það ekki Ásgeir?”

 

“Já, yfirvarðstjóri.”

 

“Þetta líkar mér,” sagði Björn og klappaði manninum á kinnina svo small í.”

 

Björn var þögull nokkra stund. Svo hóf hann aftur upp raust sína. “En verst er auðvitað Prestaklíkan.”

 

“Heyr, heyr! Helvítis prestarnir,” sögðu allir fundarmenn, nema einn. Sveinki sagði ekki orð. Hann fann hópinn stara á sig, en hann var þögull sem gröfin, horfði beint framfyrir sig og hreyfði hvorki legg né lið.

 Framhald

FRAMHALDSSAGAN

BORG ÓTTANS

Annað bindi

UGGUR OG ÓTTI

1

Leynilögreglusvínið Sveinki sat við eldhúsborðið heima hjá sér, borðaði ristað brauð, drakk kaffi og las Séð og heyrt. Greinin sem hann var að lesa var um ungmey sem hafði flutt heim til Búðardals og náð sér uppúr fíkniefnaneyslu og öðrum ólifnaði sem hún hafði leiðst útí í stórborginni. Titillinn á greininni var EITURHRESS Í SVEITINNI.

"Hugguleg pía," sagði silkimjúk rödd að baki Sveinka.

Hann sneri sér við og horfði í augu sambýliskonu sinnar, Rebbu.

"Þú hefur alltaf verið svolítið veikur fyrir svona klípulegum sveitasvínkum, er það ekki, Sveinki?"

Sveinki þagði.

Rebba, sem var grannur og spengilegur refur, hallaði sér fram og las yfir öxlina á honum. "‘Já, já,' segir Svínka, ‘ég er eiturhress. Búinn að ná mér upp úr öllu ruglinu og horfi bara björtum augum á framtíðina.' Og áður en blaðamaður kveður hana bætir hún við glettnislega, ‘Nú vantar mig bara góðan mann svo ég geti farið að hlaða niður grislingum!'"

"Ah, ég þarf þá ekki að hafa áhyggjur að þú farir að eltast við þetta flesk. Þú vilt jú ekki eignast börn," sagði Rebba.

Sveinki þagði. Hann var dulur í eðli sínu. Þar að auki var hann orðinn of seinn í vinnuna og hafði hvorki tíma né var í skapi til að ræða þetta. Barneignir voru viðkvæmt mál á heimili Sveinka og Rebbu. Rebba hélt að sambýlismaður hennar vildi ekki eignast börn, en málið var að Sveinki hafði ekkert á móti því að eignast afkvæmi. Hann vildi bara eignast þau með konu af sömu tegund og hann.

Framhald


Drög að skáldsögu

 

 

BORG ÓTTANS

 

Fyrsta bindi

 

ÁST Á AFSLÆTTI

 

Svínka er saklaus en hress hnáta utan af landi, sem kemur til höfuðborgarinnar og fer að vinna í Bónus. Hún les í Mogganum að ungar svínkur hverfi undir dularfullum kringumstæðum í borginni, en hún hefur ekki áhyggjur af því. Hún er ung, falleg og hraust. Það getur ekkert komið fyrir hana.

 

Áður en langt um líður gerist hún ástkona eigendanna. Hún er nútímasvínka og engin tepra. Hún lifir spennandi þotu- og lostalífi í dálítinn tíma, en kemst svo að því að það er bara verið að spila með hana. Hún heyrir feðgana segja að þegar þeir séu búnir að fá leið á henni verði hún brytjuð niður í skinkusalat eins og allar hinar sveitasvínkurnar. Núna skilur hún loksins slagorðið “Bónus býður betur.”

 

Svínka flýr í öngum sínum út í nóttina, en hún er orðin forfallin kókaínneytandi. Til að fjármagna neysluna leiðist hún út í súludans á næturklúbbnum Dr. Yes í Sandgerði, þar sem hún kemst í kynni við bæði mansal og vændi. En hún á enn eftir snefil af sjálfvirðingu og lofar sjálfri sér að taka aldrei þátt í slíku.

 

Eftir að lögbann er sett á súludansstaðinn hrekst hún aftur til Reykjavíkur, þar sem hún reynir að lifa hefðbundnu, heiðvirðu lífi. Hún fær vinnu á leikskóla og dreymir um að fara í Fóstruskólann. En launin eru lág og hvernig sem hún reynir tekst henni ekki að láta enda ná saman. Svínku finnst gott að borða og matarreikningarnir eru óhemju háir því hún neitar að versla í Bónus.

 

Örvænting, fíkn og fátækt leiða hana lengra og lengra út í óvissuna. Hvers eiga svín að gjalda? Hún sekkur dýpra og dýpra niður í undirheima Reykjavíkur og rekst úr einni kjallaraholu í aðra. Nýjasti leigusali hennar, Hökki hundur, hótar að beita hana ofbeldi ef hún borgar ekki leiguna. Hún biður hann vægðar. Hann svarar með hægð, “Allt er falt, vinkona. Ég get gefið þér afslátt á leigunni . . . ef þú gefur mér afslátt á blíðu þinni, væna.” Svínka sýpur hveljur, en sjálfsálitið er í molum og hún er komin út á ystu nöf. Að lokum gefst hún upp og gerist--vændissvín. Hún fylgir Hökka inn í íbúðina hans. Hann opnar bjórflösku, setur Ham á fóninn og byrjar að afklæðast. Svínka kastar upp en það verður ekki aftur snúið. Hökki glottir.

 

Næsta morgun, eftir sérlega ógeðfelda nautnanótt með Hökka, heyrir hún gamalkunnugt lag í útvarpinu, "Er ég kem heim í Búðardal" með Ðe Lónlí Blú Bojs. Hún fellir tár, en tekur svo á sig rögg, pakkar saman föggum sínum í gömlu snjáðu ferðatöskuna sem pabbi hennar átti, gengur niður á Umferðamiðstöð og yfirgefur Borg óttans fyrir fullt og allt.

 

París og Feneyjar 2007

 

Hér lýkur fyrsta bindi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband