Drög að skáldsögu

 

 

BORG ÓTTANS

 

Fyrsta bindi

 

ÁST Á AFSLÆTTI

 

Svínka er saklaus en hress hnáta utan af landi, sem kemur til höfuðborgarinnar og fer að vinna í Bónus. Hún les í Mogganum að ungar svínkur hverfi undir dularfullum kringumstæðum í borginni, en hún hefur ekki áhyggjur af því. Hún er ung, falleg og hraust. Það getur ekkert komið fyrir hana.

 

Áður en langt um líður gerist hún ástkona eigendanna. Hún er nútímasvínka og engin tepra. Hún lifir spennandi þotu- og lostalífi í dálítinn tíma, en kemst svo að því að það er bara verið að spila með hana. Hún heyrir feðgana segja að þegar þeir séu búnir að fá leið á henni verði hún brytjuð niður í skinkusalat eins og allar hinar sveitasvínkurnar. Núna skilur hún loksins slagorðið “Bónus býður betur.”

 

Svínka flýr í öngum sínum út í nóttina, en hún er orðin forfallin kókaínneytandi. Til að fjármagna neysluna leiðist hún út í súludans á næturklúbbnum Dr. Yes í Sandgerði, þar sem hún kemst í kynni við bæði mansal og vændi. En hún á enn eftir snefil af sjálfvirðingu og lofar sjálfri sér að taka aldrei þátt í slíku.

 

Eftir að lögbann er sett á súludansstaðinn hrekst hún aftur til Reykjavíkur, þar sem hún reynir að lifa hefðbundnu, heiðvirðu lífi. Hún fær vinnu á leikskóla og dreymir um að fara í Fóstruskólann. En launin eru lág og hvernig sem hún reynir tekst henni ekki að láta enda ná saman. Svínku finnst gott að borða og matarreikningarnir eru óhemju háir því hún neitar að versla í Bónus.

 

Örvænting, fíkn og fátækt leiða hana lengra og lengra út í óvissuna. Hvers eiga svín að gjalda? Hún sekkur dýpra og dýpra niður í undirheima Reykjavíkur og rekst úr einni kjallaraholu í aðra. Nýjasti leigusali hennar, Hökki hundur, hótar að beita hana ofbeldi ef hún borgar ekki leiguna. Hún biður hann vægðar. Hann svarar með hægð, “Allt er falt, vinkona. Ég get gefið þér afslátt á leigunni . . . ef þú gefur mér afslátt á blíðu þinni, væna.” Svínka sýpur hveljur, en sjálfsálitið er í molum og hún er komin út á ystu nöf. Að lokum gefst hún upp og gerist--vændissvín. Hún fylgir Hökka inn í íbúðina hans. Hann opnar bjórflösku, setur Ham á fóninn og byrjar að afklæðast. Svínka kastar upp en það verður ekki aftur snúið. Hökki glottir.

 

Næsta morgun, eftir sérlega ógeðfelda nautnanótt með Hökka, heyrir hún gamalkunnugt lag í útvarpinu, "Er ég kem heim í Búðardal" með Ðe Lónlí Blú Bojs. Hún fellir tár, en tekur svo á sig rögg, pakkar saman föggum sínum í gömlu snjáðu ferðatöskuna sem pabbi hennar átti, gengur niður á Umferðamiðstöð og yfirgefur Borg óttans fyrir fullt og allt.

 

París og Feneyjar 2007

 

Hér lýkur fyrsta bindi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Aumingja vesalings Svínka! En mikið er nú gott að hún sá að sér og fór heim í sveit í öryggið. Ýmislegt nýtt í þessari sögu. Ég þekkti t.d. ekki áður hugtakið "vændissvín". Vissi ekki heldur af þessu lostabæli í Sandgerði. Hélt að Leoncie væri flutt.

Bíð spennt eftir næsta kafla!

Björg Árnadóttir, 22.8.2007 kl. 09:11

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kærar þakkir, lesendur góðir.

Björg, að mati Leonciar er Sandgerði borg djöfulsins. Hún samdi hressilegt lag um staðinn sem heitir "Satan City."

Björgvin, Svínka c'est moi!

Wilhelm Emilsson, 22.8.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mér þykir þetta góð saga. Nú er bara að fylla inn smáatriðin og kynlífslýsingarnar.

Heyrðu, þetta þema minnir mig annars á bækurnar frá því í byrjun síðustu aldar þar sem sveitin var góð og borgin var vond. Þurfti að lesa margar slíkar sögur í bókmenntatímum í den (helmingurinn af öndergradinu mínu fór í að lesa íslenskar bókmenntir).

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.8.2007 kl. 02:59

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kærar þakkir, Kristín.

Já, þemað um borgarsorann er klassískt. Svo getur maður endurunnið það og kallað afraksturinn póstmóderniska paródíu!

Wilhelm Emilsson, 23.8.2007 kl. 06:05

5 identicon

Skellihlæ. Mér fannst eins og ég hefði sjálf skrifað þessa sögu, fyndið hvað við erum með sama stílinn. Kannski ertu ekki ættleiddur eftir allt saman?

Anný Lára (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 11:54

6 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kæra, Anný Lára!

Velkomin!

Wilhelm Emilsson, 23.8.2007 kl. 21:32

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ef ég væri þú myndi ég strax fara að tala við kvikmyndaframleiðendur. Vancouver er vön því að leika hlutverk alls konar borga og gæti ábyggilega verið Reykjavík. Svo skryppi einhver heim og tæki nokkrar myndir af Hallgrímsturni og ráðhúsinu og blandaði því saman við myndirnar frá horni Hastings og Main þar sem Svínka sést með öðru útigangsfólki!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.8.2007 kl. 22:55

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kristín.

Vancouver væri sko ekki skotaskuld úr því að leika Reykjavík.

Umboðsmaður minn og lögfræðingateymi standa í ströngum samningaviðræðum við 20th Century Fox . . . eða þannig  

Wilhelm Emilsson, 24.8.2007 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband