Tilfinningalíf karlmanna
24.7.2007 | 01:17
Ég hef lúmskt gaman af sjálfshjálparbókum og hef reyndar skrifað inngang að einni í smásögu. Sú skáldaða sjálfshjálparbók heitir Face it! You're a Loser. En nóg um það í bili. Hér er upphafið að íslenskum sjálfshjálpartexta sem kallast Tilfinningalíf karlmanna. Höfundurinn er Árni Þór Hilmarsson. Stapaprent, prentsmiðja föður míns og meðeiganda hans prentaði!
Íslendingar hafa lengstum verið stoltir af uppruna sínum og sögu. Löngu horfnar hetjur aftan úr grárri forneskju eru okkur enn ljóslifandi og Íslendingasögurnar eru eilíft rannsóknarefni fræðimanna þjóðarinnar. Þegar við lítum nánar á hetjur Íslendingasagnanna kemur í ljós að það eru ákveðin persónueinkenni sem söguritarar hafa dáð í fari þessara manna. Þetta eru einkenni eins og óttaleysi, áræði, tryggð, vísdómur, miskunnarleysi, stolt og hefnigirni. Heiður manna byggist á því að láta aldrei hlut sinn fyrir neinum. Í huga þjóðarinnar hafa þessir eiginleikar orðið ímynd karlmennsku. Samfara hetjudýrkuninni hefur því karlmennskudýrkunin samofist vitund þjóðarinnar.
Það er mikið til í þessu. "Aldrei hræddur, aldrei kalt," er slagorð hins hefðbundna íslenska karlmanns. Töffaraskapurinn, sem getur verið hressandi, en oft bara þreytandi og lúðalegur sprettur að miklu leyti úr þessum varðvegi, jarðvegi sem hefur svo blandast Hollywoodkappamenningu.
Af hverju er ég að pæla í þessu? Jú, mér var boðið að halda fyrirlestur fyrir gamla háskólann minn, The University of British Columbia, Vancouver, um Íslendingasögur og íslenskar nútímabókmenntir. Mér finnst Halldór Laxness hafa gert hugmyndinni um hetjuskap snilldarleg skil í Gerplu. Segja má að bókin sé hetjuleg aðför að hetjuskap, en hún er þó fyrst og fremst drepfyndin.
Athugasemdir
æja besti vinur minn farinn að blogga.....já þetta er skrýtið, þrátt fyrir að við höfum ekki sést í 10056 ár þá ertu alltaf besti vinur minn(á ekki að hljóma væmið) þetta er bara svona.
Einar Bragi Bragason., 24.7.2007 kl. 21:09
ertu enn að teikna
Einar Bragi Bragason., 24.7.2007 kl. 21:09
Kæri Einar Bragi.
Takk kærlega fyrir hlý orð í minn garð. Við verðum endilega að hittast þegar ég kem í heimsókn næsta sumar.
Ég teikna nú ekki mikið þessa dagana fyrir utan skrípamyndir á töfluna þegar ég er að kenna!
Wilhelm Emilsson, 25.7.2007 kl. 02:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.